Hvað er NoseWork?
NoseWork (NW) er nýlegt hundasport sem hentar öllum hundum, ungum, gömlum, liprum og stirðum. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta sport sem byggir á því að hundurinn vinni með sínu besta skynfæri, nefinu.
NW byggir á vinnu fíkniefnaleitarhunda þar sem hundum er kennt að leita að litlum lyktarfelum, staðsetja þær og láta eigandann/þjálfarann vita hvar felan er. Lyktarfelan sem notuð er í NW er einhversskonar efnisbútur (yfirleitt filter eins og notaður er undir stól/borðfætur) sem svo er sett í lyktarvatn með lykt af eukaliptus, lárviðarlaufi eða lavender.
Felurnar eru svo settar á mismunandi staði og hundinum kennt að tengja lyktina við nammi eða uppáhalds leikfang, þannig er leikurinn alltaf skemmtilegur og spennandi.
NoseWork reynir bæði á hund og eiganda. Hundurinn hefur mikið fyrir því að nota þefskynið og til að byrja með verður hann gríðarlega þreyttur eftir stuttar æfingar. Með tíma lærir hann betur á nefið og byggir upp þol, en NoseWork reynir samt alltaf mjög mikið á og hundar í topp formi geta orðið mjög þreyttir eftir erfiðar æfingar.
Eigandinn þarf oft að leggja töluvert á sig til að læra að þekkja merki hundsins þegar hann er búinn að finna lyktina og/eða staðsetja feluna. Þannig styrkist samband hunds og eiganda mikið við NW æfingarnar.
NoseWork er hægt að stunda hvar sem er, bæði innanhúss og utan svo lengi sem svæðið er ekki hættulegt fyrir hund eða eiganda. Það tekur enga stund að undirbúa leit og er þetta því hið fullkomna sport fyrir alla, hvort sem þeir hafa mikinn eða lítinn tíma til að eyða með hundinum sínum.
NoseWork kennsla:
Eftirfarandi þjálfarar/hundaskólar eru með NoseWork kennslu um þessar mundir:
- Sara Kristín Olrich White
Betri hundar
Höfuðborgarsvæðið - Hundaakademían
hunda.is
Kópavogi - Maríanna Lind Garðarsdóttir
Hundaþjálfun Maríönnu
Akureyri - Elísa Hafdís Hafþórsdóttir
Teamwork Dogtraining
Höfuðborgarsvæðið