Göngutúrinn
- Dóra Ásgeirsdóttir, hundaþjálfari -
Þegar við fáum okkur hund í fyrsta sinn held ég að við höfum flest einhverja ákveðna hugmynd um hina frábæru göngutúra framtíðarinnar í sátt og samlyndi með hundinum okkar. Draumurinn er hundur sem togar ekki, geltir ekki og fylgir manni hvert fótmál líkt og það sé hans eini tilgangur í lífinu. Blóm í haga og fuglasöngur í trjánum.
Er það tilgangur hundsins í lífinu að fylgja okkur hvert fótmál?
Ég vil segja bæði já og nei.
Hundar kjósa almennt félagsskap mannfólks. Hundar í nútíma samfélagi eru mótaðir af fólki til að henta fólki sem allra best. En við verðum samt að hafa í huga að hundar eru ennþá hundar, dýr af allt öðrum uppruna en fólk. Hver og einn hundur hefur sinn eigin persónuleika að geyma.
Þó að hundar séu mótaðir af fólki þýðir það ekki að þeir hafi sömu skoðanir og við eða að þeir séu endilega hrifnir af sömu hlutum og við. Það er mögulega hægt að líkja þeim að einhverju leyti við börn, þar sem þeir sjá allt aðra spennandi hluti í náttúrunni og umhverfi okkar en við sjálf. Á meðan við viljum ganga um á jöfnum hraða og njóta útsýnis er möguleiki á að hundurinn okkar vilji ekkert frekar en að skokka á milli áhugaverðra staða, stoppa svo við þá staði til að þefa rækilega. Svona mynstur getur hentað kraftgöngunni og líkamsræktinni afar illa.
En fyrir hvern er göngutúrinn?
Segjum sem svo að göngutúrinn sé ætlaður til að viðra hundinn. Þá myndi maður ætla að helsta markmiðið væri að hundurinn hefði gaman að og fengi eitthvað út úr ferðinni. Eðlilegur gönguhraði hunds er brokk (þar sem skástæðir fætur hreyfast saman) og í raun frekar sjaldgæft að hundar kjósi að ganga á feti sem þeir neyðast oft til að gera ef þeir eiga að fylgja okkar gönguhraða (nema þá helst smæstu hundategundirnar). En hundur er oftast ekki að fara út að ganga, til að halda sér í formi og bara hlaupa eitthvert. Þeir hafa almennt meiri áhuga á því að skokka um og skoða umhverfi sitt í leiðinni, sem gerir gönuhraða þeirra mjög óreglulegan og stoppin ansi mörg. Núna er e.t.v. einhver farinn að sjá fyrir sér að það eigi að hlaupa á eftir hundinum um allt og stoppa snarlega eins og í stöðvaþjálfun í leikfimi… en það er ekki alveg þannig. Við getum nefninlega nýtt okkur hentugleika þess að vera með langan taum. Langur taumur myndi ég segja að væri á bilinu 3-5 metrar og nægir flestum hundum einmitt til að geta skokkað á milli áhugaverðra staða á meðan maður sjálfur heldur röltinu sínu og hægir svo bara á sér til að leyfa hundinum að klára að þefa af einhverju sem honum finnst gríðarlega áhugavert.
Við getum prófað að bera saman göngutúr hundsins og að lesa blöðin (eða Facebook). Það væri frekar leiðinlegt ef einhver sæi um að fletta blaðsíðum fyrir mann og maður næði aðeins að lesa hluta fyrirsagna og aldrei heila frétt. Hundar, fólk, kettir og önnur dýr skilja eftir sig slóð skilaboða fyrir hundana að lesa. Hundar skilja sína eftir viljandi á meðan önnur dýr gera það e.t.v. óvart. Engu að síður þá eru allar þessar lyktir áhugaverðar í huga hundsins og þeir fá mikið út úr því að fá að lesa skilaboðin til enda.
Til þess svo að gera göngutúrinn enn ánægjulegri fyrir hundinn okkar getum við bætt við langa tauminn góðu mjúku (þykku) beisli sem setur ekki álag á háls hundsins og leyfir honum því að njóta sín til fulls þó að eitthvað átak komi á tauminn.
En hvað með mig og mína göngu?
Ef hundurinn var fenginn á heimilið sem til dæmis skokkfélagi, kraftgöngufélagi eða hjólafélagi, þá ætti það ekki að vera neitt mál svo framarlega sem hundurinn hefur aldur og heilsu til slíkrar hreyfingar. Þetta tvennt þyrfti bara helst að vera aðskilið, annarsvegar ganga fyrir hundinn og hinsvegar ganga/hlaup fyrir eigandann sem hundurinn er þá þjálfaður í hægt og rólega hvernig á að ganga fyrir sig. Þannig eiga hundur og eigandi að geta notið samvista og útiveru til hins ýtrasta.
Góða göngu!