FlókarHundurinn minn fór út í snjóinn og varð allur í snjókögglum, eftir það eru í honum flækjur sem ég ræð enganvegin við!
Mjúkur nýfallinn snjór getur verið versti óvinur feldhunda þó að þeim þyki hann æðislegur. Þegar snjórinn festist í feldinum vindur hann uppá sig, festist í fleyri og fleyri hárum uns allt er búið að nuddast saman í litar flækjur. Gott fyrirbyggjandi ráð er að setja flókasprey (ég nota gjarnan Fax- og Taglúða fyrir hesta) í feldinn áður en haldið er út í snjóinn. Einnig er hægt að kaupa á hundana sér tilgerða spandex galla sem halda snjónum frá feldinum (þeir eru samt ekki hlýir). Eftir útiveruna er síðan um að gera að setja hvutta beint í bað, skola úr snjóinn og setja næringu, greiða svo í gegnum feldinn strax. Afhverju má hundurinn ekki bara vera með flækjur? Minniháttar flækjur sem hanga lausar, en ekki fastar við húðina, eru í sjálfu sér ekkert vandamál. Sumar tegundir eiga meira að segja að hafa skipulagðar slíkar flækjur sem stundum eru kallaðir rastar eða "dred locks". Það eru tegundir eins og t.d. Komondor, Puli og stundum Poodle. En slíkum flækjum þarf samt að halda vel við svo að þær festist ekki allar saman og þrífa þær reglulega til að hundurinn lykti ekki eins og fjós. Flækjurnar sem myndast vegna vanhirðu á feldinum í skemmri eða lengri tíma eru hinsvegar af öðrum toga. Slíkar flækjur geta þakið stórt svæði á húðinni og lokað fyrir öndun þess svæðis. Þetta veldur hundinum oftar en ekki miklum óþægindum þar sem alltaf er að togast í eitt og eitt hár þegar hundurinn hreyfir sig. Hundurinn getur ekki klórað sér á þessum stöðum neitt frekar en við gætum klórað okkur í gegnum snjógalla. Óhreinindi gera sig heimakomin í flækjum og nást ekki úr alveg sama hversu oft hundurinn er settur í bað. Sýkingar geta jafnvel farið að myndast og grassera undir svona flókum. |
Flókamotta af ketti. Smellið á myndina til að sjá hana stærri.
|
Greiðan dugir ekki til, hvað er til ráða?
Sumar hundategundir eru með erfiðari feldgerð en aðrar til að hugsa um. Á meðan Silky terrier er með afskaplega fíngerðan feld sem frekar auðvelt er að halda flækjulausum þá eru Coton de Tulear og Bichon Frise t.d. með mun erfiðari feld þó að allir þessir hundar flokkist sem feldhundar. Þegar flækjur hafa myndast er hægt að greiða þær úr, en það fer þó eftir því hversu slæmur flókinn er.Svokallaðir Slicker burstar eru góðir í að losa um flækjur, en þeir geta mjög auðveldlega slitið feldinn og einnig sært húð hundsins ef maður passar sig ekki að hafa hendurnar á milli burstans og húðarinnar á hundinum. Ég mæli eindregið með því að fólk fái leiðbeiningu hjá vönum aðila áður en það fer útí að flókagreiða hundinn sinn. Svo er nauðsyn að eiga góða greiðu (úr járni svo hún brotni ekki) til að greiða í gegn þegar maður telur flækjurnar farnar til að fullvissa sig um að það sé rétt. Greiðan finnur minnstu flækjur og þá er bara að taka Slickerinn upp á ný til að losa þær. Rakstur er síðan besta lausnin fyrir þá hunda sem eru orðnir hreinlega teppalagðir af flókum, hvort sem það er á mörgum smáum svæðum eða hreinlega öllum skrokknum. Feldurinn kemur þá heill og óslitinn til baka þegar hann síkkar aftur. Ber þó að nefna að rakstur getur skemmt áferð á stríhærðum hundum (og í undantekningartilvikum öðrum feldtýpum) því þeir eiga það til að mýkjast mjög í feldinum og þá sérstaklega Schnauzer hundar. Mjög margir eigendur feldhunda kjósa þá leið að fara með þá í rakstur nokkrum sinnum yfir árið til að koma í veg fyrir að flókar byrji að myndast í feldinum og er það hið besta mál. Á veturnar má svo kaupa kápu fyrir þessa hunda eða hreinlega hafa þá innandyra meðan ekki er verið að hreyfa þá sérstaklega (snögghærðir hundar halda sér nokkuð hlýjum með því að vera á hlaupum). Snjóvandamálið er þá einnig úr sögunni þegar hundarnir eru snögghærðir. Ég vil viðhalda síðum og fallegum feldi á hundinum mínum. Hvernig fer ég að? Grundvallar atriði til að viðhalda feldhundi er að hann sé hreinn. Skítugur feldur festist frekar saman og flækist þar af leiðandi hraðar en ella. Það er nokkuð misjafnt milli tegunda hversu oft er æskilegt að baða, en vikulegt bað, blástur og kembing fyrir marga feldhunda er kjörin aðferð til að halda þeim góðum. Margir taka frá ákveðinn tíma á ákveðnum vikudegi sem alltaf er fyrirfram bókaður í að sinna feldhirðu. Nota þarf góðar feldvörur bæði shampó og næringu (fyrir þær tegundir sem eru með mjúkan feld). Ekki er æskilegt að nota Slicker bursta í svona reglulega feldhirðu því eins og áður sagði slíta þeir feldinn. Hárburstar (líkir okkar eigin nema með stálpinnum) eru kjörnir í að greiða í gegnum feldinn á meðan blásið er. |
Allur réttur áskilinn © hundur.is